Þátttaka í starfsendurhæfingu

Til þess að komast í starfsendurhæfingu þarf fólk að hafa tilvísun. Starfsendurhæfing er fjármögnuð af tilvísendum og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

ViIRK starfsendurhæfingarsjóður er aðal kaupandi þjónustu hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar. Sjóðurinn hefur það hlutverk að hafa umsjón með starfsendurhæfingu á Íslandi og fjármagna viðeigandi úrræði, aðgerðir og verkefni á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar.

Til þess að eiga rétt á þjónustu VIRK þarf fólk að vera með heilsubrest sem staðfestur er af lækni og hafa tilvísun frá lækni . Beiðnir um atvinnutengda starfsendurhæfingu hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar fyrir fólk með heilsubrest eiga því að berast til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs þar sem mat er lagt á mál einstaklings, hvort atvinnutengd endurhæfing sé talin raunhæf og hvaða þjónusta sé talin henta viðkomandi. 

Fólki sem telur sig þurfa á starfsendurhæfingu að halda en er ekki með skilgreindan heilsubrest  er bent á að snúa sér til þeirrar þjónustustofnunar sem það er í sambandi við s.s. Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaga, sem eru meðal samstarfsaðila Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar.

Hugmyndafræði

Skoða nánar

Leiðir í endurhæfingu

Skoða nánar

Tilvísun

Skoða nánar

ÞJÓNUSTA Á STARFSENDURHÆFINGARSTÖÐ

Þjónusta á starfsendurhæfingarstöð er heildstæð þjónusta, en það þýðir að utanumhald um endurhæfingu þátttakenda er á stöðinni. Þar eru gerðar áætlanir með einstaklingum miðað við þeirra þarfir á hverjum tíma, málum fylgt eftir og áætlanir aðlagaðar ef þörf krefur í samvinnu við þátttakendur sjálfa. Líta má á þjónustu á starfsendurhæfingarstöð sem eina alls herjar sjálfseflingu sem hefur það markmið að auka færni fólks og trú þess á eigin getu með því að hjálpa því að koma auga á og nýta eigin styrkleika og efla það til þess að draga úr eða vinna bug á hindrunum sem standa í vegi fyrir því að fólk geti gert þær breytingar sem það stefnir að.

Á starfsendurhæfingarstöð hefur fólk tækifæri til þess að vera samferða öðrum á sömu leið, hjálpast að og þjálfa sig í samskiptum við ólíka einstaklinga og njóta leiðsagnar fagfólks í því mikilvæga ferli. Mikið er lagt upp úr því hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar að skapa umgjörð og umhverfi sem einkennist af skilningi og samvinnu þar sem fólki geti liðið vel, gagnkvæm virðing, umburðarlyndi og traust ríki og allir eigi rétt á að á þá sé hlustað.

MARKMIÐ ENDURHÆFINGARINNAR

Að þátttakendur komist í vinnu eða nám til þess að styrkja stöðu sína gagnvart vinnumarkaði
Aukin lífsgæði þátttakenda og fjölskyldna þeirra
Að endurhæfingin fari fram í heimabyggð.

Samskiptaþáttur starfsins er afar mikilvægur til þess að þjálfa félagslega færni, æfa samvinnu, endurmeta viðhorf og búa sig undir þátttöku í námi og starfi í nútíma þjóðfélagi. Það staðfesta niðurstöður flestra rannsókna sem gerðar hafa verið á upplifun þátttakenda á því sem gagnast þeim í starfsendurhæfingu. Þessi þáttur er hins vegar oft vanmetinn liður í endurhæfingunni og fær minna vægi en hann á skilið þegar úrræði og þjónusta er skipulögð og um þau fjallað opinberlega.

Þjónusta stöðvarinnar er einstaklingsmiðuð, en fer að hluta til fram í hóp. Í stað þess að sækja þjónustu vítt og breitt á höfuðborgarsvæðinu mæta þátttakendur daglega í starfsstöðina að Flatahrauni 3 og taka þátt í fjölbreyttum námskeiðum, hópastarfi og fræðslu sem miðast við þarfir þeirra. Þeir fylgja stundaskrá sem myndar eins konar ramma um starfið og gagnast vel til þess að byggja upp og halda góðum daglegum takti. Til viðbótar við námskeiðin eru þátttakendur í þjónustu hjá mismundandi sérfræðingum eftir þörfum hvers og eins.

Þátttakendur hafa ólíkar þarfir og til þess að koma sem best á móts við þær eru leiðir í endurhæfingunni mismundandi, taka mið af þörfum þátttakenda hverju sinni og eru stöðugt í þróun.

Einstaklingar eru misjafnlega lengi í endurhæfingu og geta hætt og hafið störf á vinnumarkaði eða farið í nám hvenær sem þeir eru tilbúnir til og tækifæri bjóðast.

Scroll to Top