Algengar spurningar

Er Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar bara fyrir Hafnfirðinga?
Nei, búseta eða lögheimili þátttakenda skiptir ekki máli.
Fyrir hverja er þjónustan?
Þátttaka í starfsendurhæfingu hentar fólki sem hefur þurft að hætta störfum t.d. vegna sjúkdóma, slysa, áfalla eða erfiðra félagslegra aðstæðna eða á erfitt með að ná fótfestu á vinnumarkaði. Til þess að geta nýtt sér þjónustuna þarf það að vera tilbúið til þess að sinna starfsendurhæfingu.
Hvernig kemst ég að hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar?

Til þess að komast að í þjónustu þarf tilvísun sjá hér: 

 

Eru þátttakendur á launum á meðan þeir eru í endurhæfingu?
Hversu oft í viku er prógrammið?

Skipulögð dagskrá er alla virka daga og meiri hluti þátttakenda mætir í starfsstöðina alla virka daga. Það fer þó eftir áherslum í endurhæfingu hvers einstaklings, t.d. þegar nám eða starfsprófun er hluti endurhæfingarinnar mætir fólk sjaldnar í starfsstöðina.

Er Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar með þjónustu heima hjá þátttakendum, t.d. þegar þeir eiga erfitt með að koma sér að verki?

Ef þörf krefur er möguleiki á að fá iðjuþjálfa heim til þess að ráðleggja og hjálpa við skipulagningu verka.

Fá þátttakendur aðstoð við samskipti eða umsóknir til við þjónustustofnanirs.s. Tryggingastofnun, heilbrigðiskerfið ofl.?

Já, þátttakendur geta fengið aðstoð við það hjá ráðgjöfum sínum. Þeir hafa aðgang að tölvum í starfsstöð endurhæfingarinnar.

Er unnið í hópum?

Þjónustan er einstaklingsbundin, en hluti endurhæfingar lang-flestra fer að einhverju leyti fram í hópi annarra þátttakenda. Þar er um að ræða námskeið og fræðslu af ólíkum toga, gönguferðir, heimsóknir í fyrirtæki og fleira. 

Fyrir hvaða aldur er þjónustan?

Þjónustan er fyrir fólk á aldrinum 18 ára til 60+ af öllum kynjum.

Hvað er maður lengi í starfsendurhæfingu?

Tímalengd fer eftir stöðu hvers og eins og því hvernig gengur í endurhæfingunni. Staðan er metin reglulega með tilvísandi aðilum. Algengast er að þátttakendur séu í 3-12 mánuði í þjónustu hjá stöðinni. 

Er mætingaskylda?

Já. Þátttaka í endurhæfingu er skuldbinding og það er skyldumæting sem miðast við endurhæfingaráætlun hvers og eins.

Eru allir í sálfræðiviðtölum?

Nei. Þörf fyrir sálfræðiviðtöl og aðra þjónustu sérfræðinga er ólík frá einum einstaklingi til annars og er hluti af einstaklingsmiðaðri þjónustu og metin með og fyrir hvern og einn þátttakanda.

Er þjónustan fyrir útlendinga?

Til þess að geta nýtt sér fræðslu og fyrirlestra til fulls þarf fólk að geta skilið íslensku eða nýtt sér tæknilausnir til þess. Einstaklingsþjónusta getur farið fram á ensku eða með aðstoð túlka.

Get ég verið í námi ef ég er í starfsendurhæfingu?

Já, nám getur verið hluti af endurhæfingu einstaklinga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum varðandi tegund náms, fjölda eininga ofl.

Má vinna með starfsendurhæfingu?

Já, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum varðandi starfshlutfall og ráðningarform. Það getur verið gagnlegt fyrir fólk að halda vinnusambandi á meðan á starfsendurhæfingu stendur. Það getur t.d. falið í sér að vinna í hlutastarfi samhliða þátttöku. Í þeim tilvikum er nauðsynlegt að gott samstarf eða samráð sé milli starfsendurhæfingarstöðvar og atvinnurekanda.

Hver er munurinn á VIRK og STENDUR (Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar)?

VIRK er starfsendurhæfingarsjóður sem hefur skilgreint hlutverkog fjármögnun skv. lögum um slíka sjóði. Ráðgjafar og sérfræðingar VIRK meta endurhæfingarþörf einstaklinga í þjónustu VIRK og velja endurhæfingarúrræði í samræmi við það.  Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar er sjálfseignarstofnun sem rekin er fyrir þjónustugjöld. Þjónustan er þverfagleg og heildstæð, sem þýðir að stöðin tekur að sér utanumhald og alla endurhæfingarþjónustu við einstaklinga á meðan þeir eru í þjónustu stöðvarinnar. Meti VIRK þarfir einstaklinga kalla á þverfaglega, heildstæða endurhæfingarþjónustu er Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar eitt af þeim úrræðum sem kemur til greina að vísa fólki í.

Hvaða þjónusta er í boði?

Hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar er fjölbreytt framboð á fræðslu og námskeiðum sem snúast að megninu til um heilsutengt efni eða sitthvað tengt virkni og vinnu. Hreyfing er hluti af því. Þessir þættir er það sem sjá má á Dagskrá stöðvarinnar og fer fram í hópum. Einstaklingsmiðuð þjónusta felst síðan í stuðningsviðtölum og leiðsögn hjá ráðgjöfum og aðstoð annarra sérfræðinga eftir þörfum einstaklinga. Þar getur t.d. verið um að ræða sálfræðiviðtöl, næringarráðgjöf, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, markþjálfun, HAM-ráðgjöf, fjölskylduráðgjöf og fleira.

Af hverju er dagskrá alla daga?

Dagleg mæting og virkni styður við góðan takt í daglegu lífi og er öflug aðferð til þess að hjálpa fólki að ná og viðhalda rútínu. Þá er það einnig góð leið til þess að takast á við félagskvíða að mæta daglega á sama stað og hitta sama fólkið í styðjandi umhverfi.

Hver er meðalaldur þátttakenda?

Meðalaldur er breytilegur frá einu tímabili til annars, en liggur yfirleitt á bilinu 30-35 ár.

Scroll to Top