Endurhæfingin

Námskeið og fræðsla

Fjölmörg námskeið eru á dagskrá hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar. Er þar um að ræða fjölbreytta fræðslu um ýmis heilsutengd málefni, viðhorf, væntingar, markmiðasetningu, virkni og atvinnu. Lögð er áhersla á að hjálpa þátttakendum að nýta sér efni námskeiðanna til þess að gera þær breytingar á lifi sínu sem þeir hafa sett sér að gera í endurhæfingunni.
Skoða nánar

Hópastarf

Hópastarf er af ýmsum toga. Þemavinna, meðferðarhópar og hópverkefni eru dæmi um hópastarf, en undir það falla einnig óformleg samskipti, samvera með öðrum, spil, leikir, handverk og fleiri félagslegar athafnir. Samvera með öðrum er tækifæri til þess að þjálfa sig í samskiptum og takast á við forðun.
Skoða nánar

Hreyfing og virkni

Skipulögð hreyfing og virkni er hluti af dagskránni og er tilgangurinn almenn heilsuefling. Þar er um að ræða gönguferðir, æfingar í tækjasal, æfingar undir stjórn þjálfara og fleira. Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar styður við reglulega hreyfingu þátttakenda með niðurgreiðslu æfingagjalda.
Skoða nánar

Atvinnutenging

Tenging þátttakenda við vinnumarkaðinn er mikilvægur þáttur starfseminnar. Undir þennan lið felst undirbúningur atvinnuþátttöku s.s. stefnumörkun, ferilskrárgerð, fræðsla um vinnumarkað, heimsóknir á vinnustaði og frá atvinnulífinu auk starfsprófunar við raunaðstæður.
Skoða nánar

Nám

Nám getur verið hluti af endurhæfingu þátttakenda. Er þá um að ræða hlutanám eða námskeið sem líklegt er til þess að auka möguleika þátttakenda til atvinnuþátttöku eða sem er skref inn í lengra nám. Námið er skipulagt í samvinnu þátttakenda við tilvísendur, skóla og fagfólk Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar.
Skoða nánar

Sérfræðiþjónusta

Margs konar sérfræðiþjónusta er veitt miðað við þarfir hver og eins þátttakenda. Hún getur t.d. falist í þjónustu sálfræðings, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfun, markþjálfun, ADHD ráðgjöf, næringarráðgjöf, fjármálaráðgjöf og fleiru.
Skoða nánar

Allir þátttakendur fá einstaklingsráðgjöf og stuðning. Endurhæfingin fer að mestu fram í starfsstöð endurhæfingarinnar að Flatahrauni 3. Starfsmenn Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar eru tengiliðir milli þátttakenda og þeirra fagmanna t.d. í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem hafa með málefni þeirra að gera og annarra sem veitt geta aðstoð og stuðning í endurhæfingunni. Hver þátttakandi hefur ákveðinn tengilið í hópi starfsmanna.

Meðal fagfólks og stofnana sem koma að starfinu má nefna félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, náms- og starfsráðgjafa, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, menntastofnanir, kennara og námskeiðshaldara.

Endurhæfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Endurhæfingin er einstaklingsmiðuð og þátttakendur fara ólíkar leiðir, á mismunandi hraða og unnið er að heildstæðri úrlausn mála með hverjum þátttakanda eftir því sem kostur er.. Fagfólk starfsendurhæfingarinnar aðstoðar þátttakendur við að leggja mat á stöðu sína og framvindu endurhæfingar og setja sér raunhæf markmið.  Úrrræði sem eru til staðar í nærsamfélaginu svo sem í heilbrigðis-, félags-, og menntakerfinu eru nýtt í endurhæfingunni og með því að koma á eða auka samvinnu milli ólíkra kerfa er reynt hámarka árangur þjónustunnar sem þau geta veitt. 

Hver þátttakandi hefur sinn ákveðna ráðgjafa í hópi fagfólks endurhæfingarinnar sem er tengiliður hans við tilvísandi aðila, aðra sérfræðinga og þjónustukerfi, veitir stuðning og aðhald og aðstoðar hann við að skipuleggja sína endurhæfingu. Talsverður hluti endurhæfingarinnar fer fram í hópi þar sem fram fer samvinnunám og þátttakendur vinna að því að efla og styrkja sjálfa sig í samstarfi og samskiptum hver við  annan. Stefnt er að vaxandi sjálfstæði þátttakenda eftir því sem á líður endurhæfinguna.

Reynt er að koma til móts við þarfir hvers og eins þátttakanda eftir því sem kostur er. Þeim er hjálpað að átta sig á eigin stöðu, vinnugetu, námsþörfum og möguleikum. Haldin eru ýmis grunnnámskeið og einnig gefst þeim kostur á námstengdri endurhæfingu. Námshluti endurhæfingarinnar fer þá fram utan starfsstöðvar endurhæfingarinnar en Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar veitir stuðning, ráðgjöf og heldur utan um aðra þætti endurhæfingarinnar.

Sem dæmi um sérfræðiþjónustu sem getur staðið þátttakendum til boða má nefna félagsráðgjöf, fjármálaráðgjöf, fjöldkylduráðgjöf, iðjuþjálfun, náms- og starfsráðgjöf, næringarráðgjöf, ráðgjöf sjúkraþjálfara og sálfræðiviðtöl.

Allan endurhæfingartímann eru þátttakendur í reglulegum stuðningsviðtölum hjá ákveðnum ráðgjafa Starfsendurhæfingarinnar og fá hvatningu og aðhald við að vinna að markmiðum sínum. 

Scroll to Top