Endurhæfingin er einstaklingsmiðuð og þátttakendur fara ólíkar leiðir, á mismunandi hraða og unnið er að heildstæðri úrlausn mála með hverjum þátttakanda eftir því sem kostur er.. Fagfólk starfsendurhæfingarinnar aðstoðar þátttakendur við að leggja mat á stöðu sína og framvindu endurhæfingar og setja sér raunhæf markmið. Úrrræði sem eru til staðar í nærsamfélaginu svo sem í heilbrigðis-, félags-, og menntakerfinu eru nýtt í endurhæfingunni og með því að koma á eða auka samvinnu milli ólíkra kerfa er reynt hámarka árangur þjónustunnar sem þau geta veitt.
Hver þátttakandi hefur sinn ákveðna ráðgjafa í hópi fagfólks endurhæfingarinnar sem er tengiliður hans við tilvísandi aðila, aðra sérfræðinga og þjónustukerfi, veitir stuðning og aðhald og aðstoðar hann við að skipuleggja sína endurhæfingu. Talsverður hluti endurhæfingarinnar fer fram í hópi þar sem fram fer samvinnunám og þátttakendur vinna að því að efla og styrkja sjálfa sig í samstarfi og samskiptum hver við annan. Stefnt er að vaxandi sjálfstæði þátttakenda eftir því sem á líður endurhæfinguna.
Reynt er að koma til móts við þarfir hvers og eins þátttakanda eftir því sem kostur er. Þeim er hjálpað að átta sig á eigin stöðu, vinnugetu, námsþörfum og möguleikum. Haldin eru ýmis grunnnámskeið og einnig gefst þeim kostur á námstengdri endurhæfingu. Námshluti endurhæfingarinnar fer þá fram utan starfsstöðvar endurhæfingarinnar en Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar veitir stuðning, ráðgjöf og heldur utan um aðra þætti endurhæfingarinnar.
Sem dæmi um sérfræðiþjónustu sem getur staðið þátttakendum til boða má nefna félagsráðgjöf, fjármálaráðgjöf, fjöldkylduráðgjöf, iðjuþjálfun, náms- og starfsráðgjöf, næringarráðgjöf, ráðgjöf sjúkraþjálfara og sálfræðiviðtöl.
Allan endurhæfingartímann eru þátttakendur í reglulegum stuðningsviðtölum hjá ákveðnum ráðgjafa Starfsendurhæfingarinnar og fá hvatningu og aðhald við að vinna að markmiðum sínum.
Starfsprófun á vinnumarkaði
er einn hluti endurhæfingarinnar hjá mjög mörgum þátttakendum og er þá lokahnykkur endurhæfingar þeirra. Þar hafa þeir tækifæri til þess að láta reyna á vinnufærni sína og vinnuþrek eða prófa nýjan starfsvettvang ef þeir þurfa að skipta um starf heilsu sinnar vegna. Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar hefur átt mjög gott samstarf við atvinnurekendur varðandi þennan þátt endurhæfingarinnar.
Þátttakendur fá aðstoð við atvinnuleit eða að velja sér nám við hæfi og geta hætt í endurhæfingu og hafið störf á vinnumarkaði eða farið í nám hvenær sem þeir eru tilbúnir til. Því eru þeir misjafnlega lengi í endurhæfingu, allt eftir þörfum hvers og eins og eðli endurhæfingarinnar.
Eftir að eiginlegri endurhæfingu lýkur geta þátttakendur átt kost á eftirfylgd.