Hugmyndafræði Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar byggir á svonefndu "Húsavíkurmódeli". Þróun þess hófst á Húsavík skömmu eftir aldamót með samvinnu fagfólks félagsþjónustu, heilbrigðiskerfis og menntakerfis og leiddi til stofnunar BYRS starfsendurhæfingar sem síðar varð Starfsendurhæfing Norðurlands (SN). Tilurð Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar 2008 má rekja til þróunarverkefnis SN sem unnið var 2007-2009 og fólst í yfirfærsu hugmyndafræðinnar til Hafnarfjarðar, og aðlögun starfsaðferða að aðstæðum í Firðinum.
Meginstef hugmyndafræðinnar eru að endurhæfingin sé heildstæð (líf-, sál-, félagsleg) og að frá upphafi komi þátttakendur að sinni endurhæfingu með virkum hætti. Hver þátttakandi gerir áætlun með aðstoð ráðgjafa StHafn þar sem fram kemur eru hverjir áhersluþættir endurhæfingarinnar eru og í hverju hún felst. Lögð er áhersla á að hjálpa þátttakendum á að átta sig á og ná að nýta eigin styrkleika, auka virkni sína og frumkvæði til þess að taka ábyrgð á eigin velferð. Í endurhæfingunni er unnið með þá þætti sem þeir telja hindra þátttöku sína á vinnumarkaði. Nær allir þátttakendur tengjast ákveðnum hópi frá upphafi endurhæfingarinnar.
Allir þátttakendur fá einstaklingsráðgjöf og stuðning. Endurhæfingin fer að mestu fram í starfsstöð endurhæfingarinnar að Flatahrauni 3. Starfsmenn Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar eru tengiliðir milli þátttakenda og þeirra fagmanna t.d. í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem hafa með málefni þeirra að gera og annarra sem veitt geta aðstoð og stuðning í endurhæfingunni. Hver þátttakandi hefur ákveðinn tengilið í hópi starfsmanna.
Meðal fagfólks og stofnana sem koma að starfinu má nefna félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, náms- og starfsráðgjafa, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, menntastofnanir, kennara og námskeiðshaldara.
Endurhæfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Markmið endurhæfingarinnar
Að þátttakendur komist í vinnu eða nám til þess að styrkja stöðu sína gagnvart vinnumarkaði
Aukin lífsgæði þátttakenda og fjölskyldna þeirra
Að endurhæfingin fari fram í heimabyggð.